Vikulöng þrekraun í beinu streymi til styrktar Píeta samtökunum

Næstkomandi laugardag 9. nóvember kl. 16 í líkamsræktarstöðinni Átaki, Skógarhlíð 10 mun Einar Hansberg Árnason hefja vikulangt átak sem felur í sér að framkvæma röð krefjandi æfinga samtals 500 sinnum í heila viku til að vekja athygli á starfsemi Píeta samtakanna. Æfingin inniheldur 2.000 metra á þrekhjóli, 1.000 metra á róðravél, 500 metra á skíðavél ásamt upphífingum.

Markmið Einars er að ljúka síðustu umferðinni viku síðar, síðdegis laugardaginn 16. nóvember. Hægt verður að fylgjast með Einari allan tímann í beinu streymi á slóðinni: https://www.afrek.fitness/fyrirpieta/

Með þessu vill Einar vekja athygli á mikilvægu starfi Píeta samtakanna en hann hefur áður lagt samtökunum lið, síðast fyrir tveimur árum þegar hann æfði samfellt í 50 klukkustundir. „Við erum að vekja athygli á mjög mikilvægu málefni,“ segir hann. „Það er óþægilegt að ræða þessi mál en við þurfum að geta gert það. Fólk á ekki að þurfa að þjást í skugganum, við erum hér fyrir hvert annað.“

👉Þau sem vilja styrkja Píeta-samtökin er bent á styrktarsíðuna: pieta.is/styrkja-samtokin/

👉Einnig er hægt að leggja beint inn á samtökin: Kt. 410416-0690 – Reikn nr. 0301-26-041041 eða smáforritið AUR, notendendanafn @Pieta.

Píeta samtökin veita fyrstu hjálp, aðgengilega þjónustu, stuðning og meðferð fyrir þá sem eru í sjálfsvígs- eða sjálfsskaðahættu og brú í úrræði í aðra þjónustu. Þá bjóða samtökin einnig upp á meðferð og stuðning við aðstandendur. Þjónustan er gjaldfrjáls og stendur til boða öllum þeim sem hafa náð átján ára aldri. Píeta samtökin vinna einnig að forvörnum gegn sjálfsskaða og sjálfsvígum og velja vera leiðandi í þeim málaflokki á Íslandi.

Það hefur verið mikil aukning í eftirspurn eftir þjónustu Píeta samtakanna að undanförnu en samtökin eru nú með starfsemi í Reykjavík, Húsavík, á Akureyri og Ísafirði. Þau þjónusta allt landið með Píeta símanum 552 2218 sem er opinn allan sólahringinn allt árið um kring. Nú liggur fyrir að samtökin hafa áhuga á að opna Píeta skjól á Austurlandi en þörfin þar fyrir aukna geðheilbrigðisþjónustu er gríðarleg og er mikil eftirspurn eftir þeirrigagnreyndu meðferðarþjónustu þeirri sem Píeta veitir.

Einkunnarorð Píeta samtakanna eru „Það er alltaf von!“ og „Segðu það upphátt“ með þeim hvetja Píeta fólk til að sýna hvort öðru mildi, skilning og spyrja náungann hvernig honum líði og ekki síður að hvetja fólk til að tala upphátt um tilfnningar og líðan.

#fyrirpíeta

Deila
Deila