Ertu með sjálfsvígshugsanir?

Sjálfsvígshugsanir

Ertu með sjálfsvígshugsanir? Upplifir þú einmanaleika eða ótta? Áttu erfitt með að segja frá líðan þinni og hugsunum? Fyrsta skrefið er að hringja í okkur hjá Píeta í síma 552 2218.

Margir upplifa sjálfsvígshugsanir og  það hjálpar að tala um þær. Sjálfsvígshugsanir eða sjálfsskaði eru ekki merki um veikleika heldur mikla vanlíðan og sársauka.

Ef þú fótbrotnar hikar þú ekki við að leita þér aðstoðar.  Þú færð þá meðferð sem þú þarft til að jafna þig og láta brotið gróa. Það sama á við um tilfinningalega vanlíðan. Segðu fjölskyldu eða vini frá því  hvernig þér líður. Þau geta aðstoðað þig við að hafa samband við okkur ef þú treystir þér ekki til þess.  

 

Hvað gerist þegar þú hefur samband við okkur?

Þegar þú hefur samband við okkur spyr móttökuráðgjafinn okkar þig nokkurra spurninga til að vera viss um að þú sért að koma á réttan stað. Þér er velkomið að hafa einhvern með þér í fyrsta viðtalið ef þú vilt. Allir geta haft samband við okkur án tilvísana.

Fyrsta viðtal er matsviðtal hjá fagaðila Píeta samtakanna en þar fer fram mat á þínum vanda og metin þörf á meðferð. Viðtölin miðast venjulega við 50 mínútur og eru alltaf gjaldfrjáls. Við leggjum áherslu á að skapa hlýtt, kærleiksríkt og öruggt umhverfi. 

Píetasíminn er opinn allan sólahringinn. Þú getur líka hringt í 1717 eða mætt á bráðamóttöku geðsviðs. Ef þú ert í bráðri hættu, skaltu hringja strax í 112 til að fá aðstoð.

Við tökum aðeins við einstaklingum 18 ára og eldri. Undir 18 ára geta leitað til bráðamóttöku barna á Landspítala, Heilsugæslu eða á Bergið.