HVERNIG GET ÉG HJÁLPAÐ?

STYRKJA PÍETA

Með þínum styrk þá getum við borgað fyrir rekstur húsnæðis, nauðsynjar og greiðslur til sérfræðinga á borð við sálfræðinga og geðhjúkrunarfræðinga.

GERAST SJÁLFBOÐALIÐI

Sjálfboðaliðar okkar eru ómetanleg hjálp fyrir okkur. Við erum ávallt að leita að fólki sem hefur áhuga á að hjálpa Píeta.

VERA VINUR

Ef þú þekkir einhvern sem er með hugsanir um að taka eigið líf, láttu hann/hana vita af Píeta samtökunum. Við getum hjálpað.

UM PÍETA SAMTÖKIN

Píeta samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. Starfsemin er rekin að fyrirmynd og eftir hugmyndafræði Pieta House á Írlandi. Samtökin opnuðu þjónustu sína vorið 2018 og eru með starfsemina að Baldursgötu 7 í Reykjavík. Til samtakanna geta leitað einstaklingar og aðstandendur sem vilja fá hjálp og viðtal hjá fagfólki. Lagt er upp úr því að bjóða upp á rólegt og notalegt umhverfi fyrir skjólstæðinga.

Meðferð okkar er mótuð af samúð og virðingu fyrir hverjum þeim sem til okkar leitar og áhersla lögð á lausnir og uppbyggingu. Miðað er að því að leysa yfirstandandi krísu með viðkomandi og glæða von um líf sem er þess virði að lifa. Kennd eru ýmis bjargráð til að fást við erfiðar tilfinningar ásamt streitu- og tilfinningastjórnun og samskiptafærni.

Gefinn er kostur á allt að 15 viðtölum, en þörfin er metin í hverju tilviki fyrir sig. Þegar við á er fjölskyldu og/eða nánustu aðstandendum boðið að taka þátt í meðferðinni, með það að markmiði að styrkja stuðningsnet einstaklingsins. Gefinn er kostur á allt að 5 viðtölum fyrir aðstandendur.
Meðferðin er skjólstæðingum að öllu gjaldfrjáls.

FÓLKIÐ Á BAKVIÐ PÍETA

Að félaginu stendur hópur einstaklinga sem hafa mikla þekkingu og reynslu af málefninu. Í stjórn Píeta samtakanna sitja Björk Jónsdóttir formaður, Benedikt Þór Guðmundsson, Jóhann Baldur Arngrímsson, Margrét María Sigurðardóttir og Vilhjálmur Árnason.

Einnig eru samtökin með ráðgjafarráð sem er skipað fræðimönnum úr háskólasamfélaginu og fylgist með störfum Píeta samtakanna og eru til taks þegar samtökin þarfnast aðstoðar við hin ýmsu mál.  Meðlimir í ráðgjafaráðinu hafa reynslu af því að missa náinn ástvin úr sjálfsvígi.

FRÉTTIR