EmpowerYOUth – skólaverkefni

Píeta samtökin eru leiðandi í glæsilegu Evrópusamstarfsverkefni í nánu samstarfsi við Hafnarfjarðarbæ, Kópavogsbæ, NorthConcusting, Centro Sviluppo Creativo Danilo Dolci á Ítalíu og National Management School í Búlgaríu. Verkefnið er styrkt af Erasmus+ og miðar að því að aðlaga námsefni um sjálfsvígsforvarnir að íslenskum, ítölskum og Búlgörskum háttum.

EmpowerYOUth verkefnið gengur út á að styrkja frístundarleiðbeinendur og námsráðgjafa í skólum í að styðja við seiglu ungmenna og er ætlað sem kennsluefni í lífsleiknitímum. Þetta námsefni er öðruvísi að því leitinu til að það var hannað með aðstoð nemenda. Spurningakannanir voru lagðar fyrir nemendur og nemendur úr fókushópum voru spurðir hvað það er sem er að trufla þá einna mest. Allt námsefnið var hannað út frá þeirra svörum. Námsþættir eru 12 talsins og eru kvíði, geðheilsa, samfélagsmiðlar, líkamsímynd, vinir, fjölskylda, kynvitund, einelti, einmanaleiki, skólastress, peningar og gildi. Nemendur kjósa svo 6 af ofantöldum þáttum til að ræða í lífsleiknitímum næstu 6 vikurnar. Markmið með tímunum eru að kenna hjálpleg bjargráð við algengum áskorunum á unglingsárum og hvetja nemendur til að leita sér aðstoðar ef þörf þykir. Nánar er hægt að lesa um EmpowerYOUth HÉR.

EmpowerYOUth byggir á tveimur fyrri vel heppnuðum Erasmus+ verkefnum: BUILD (byggjum þrautseigju og bjartari framtíð) og I-YOU. Nánar er hægt að lesa um BUILD verkefnið HÉR.

I-YOU verkefnið gekk út á að hanna app fyrir unglinga með hjálplegum bjargráðum (I-YOU appið).