Þann 7. júlí leggur slökkviliðs- og sjúkraflutningamaðurinn Bergur Vilhjálmsson upp í eitt mest krefjandi ferðalag lífs síns – ekki sér til dýrðar, heldur til að vekja athygli á þeim þunga bagga sem einstaklingar með sjálfsvígshugsanir bera og safna fé fyrir Píeta samtökin.
– Smelltu hér til að heita á Berg og styrkja Píeta samtökin!
Á aðeins tveimur vikum hyggst hann ganga frá Goðafossi til Reykjavíkur, í gegnum hrjóstrugar víðáttur Sprengisands, með 100 kílóa kerru í eftirdragi sem ber allan hans búnað. Þetta er ekki bara ferðalag – þetta er táknmynd þeirrar baráttu sem þúsundir glíma við á hverjum degi. Bergur er enginn nýgræðingur í átaksverkefnum. Í fyrra gekk hann frá Akranesi til Reykjavíkur með 200 kílóa sleða og safnaði meira fé á 48 tímum en nokkur hafði áður gert fyrir Píeta. Nú ætlar hann að ganga enn lengra – bókstaflega – til að halda áfram að berjast fyrir málefni sem snertir okkur öll: andleg heilsa og lífsbjörg.
„Ég vil nýta styrk minn og úthald til að vekja athygli á málefni sem skiptir miklu máli,“ segir Bergur. „Enginn ætti að þurfa að kljást við myrkrið einn. Ef þetta verkefni getur hjálpað einni manneskju að sjá að hún er ekki ein, það sé alltaf von og það sé hægt að leita sér hjálpar, þá hefur það skilað árangri.
