Hringdu 

Vísbendingar um sjálfsvígshættu

Hvers vegna fær fólk sjálfsvígshugsanir?”

Það er engin ein ástæða fyrir því að fólk tekur lífið sitt. Oftast gerist það í samspili á milli ýmissa álagsþátta og geðræns vanda sem veldur upplifun af vonleysi og örvæntingu. Þunglyndi er sú geðröskun sem oftast er tengd við sjálfsvíg. Áföll, kvíði og vímuefnavandi, sem ekki er unnið með eru einnig áhættuþættir fyrir sjálfsvíg. Það er  mikilvægt að gera sér grein fyrir því að með því að sækja sér hjálp og vinna í sínum málum þá er alltaf von á bata.

Breytingar á hegðun

Algengar vísbendingar um sjálfsvígshættu eru breytingar á hegðun og á líðan.
- Að gefa frá sér eigur sínar eða ganga frá fjármálum
- Einangra sig frá vinum, fjölskyldu og samfélagi
- Misnotkun áfengis og/ eða annarra vímuefna
- Aukin neysla og önnur áhættuhegðun
- Tal um að vilja ekki lifa lengur
- Tal um að hann/ hún/ það sé einskis virðifyrir aðra, að þau séu bara fyrir og/ eða að aðrir væru betur settir án þeirra
- Leita leiða til að taka líf sitt, tala eða skrifa um dauðann

Breytingar á líðan

Yfirþyrmandi hugsanir um sjálfsvíg, svo fátt annað kemst að er alvarleg vísbending um sjálfsvígshættu.
- Vonleysi – viss um að ástandið muni ekki batna
- Kæruleysi – er sama um allt
- Tilgangsleysi- sér ekki tilgang með lífinu
- Upplifun að það sé engin leið út úr núverandi ástandi eða aðstæðum
- Kvíði, pirringur, stuttur þráður
- Breytingar á svefnvenjum
- Óstöðugt geðslag, skapsveiflur og hvatvísi