50 KLUKKUSTUNDIR
Árveknisátak um forvarnir gegn sjálfsvígum
Einar Hansberg leggur Píeta-samtökunum lið
Nú fer í hönd sá tími árs sem getur verið hvað erfiðastur fyrir þá fjölmörgu sem glíma við þunglyndi og sálræna erfiðleika af einhverjum toga. Einar Hansberg ætlar að vekja athygli á gríðarlega mikilvægu starfi Píeta-samtakanna á Íslandi með því að framkvæma æfingu sem inniheldur 56 kaloríur á Concept2-tæki, 10 upphífingar og 11 réttstöðulyftur á 15 mínútna fresti í alls 50 klukkutíma. Viðburðurinn fer fram í húsakynnum Afreks við Skógarhlíð og hefst fimmtudaginn 10. nóvember klukkan 16:00. Streymt verður beint frá verkefninu og koma Mjólkursamsalan og Krónan að því að kosta þá útsendingu.
Píeta-samtökin vinna mikilvægt starf í að færa umræðuna um sjálfsvíg upp á yfirborðið og eru leiðandi í forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum hér á landi. Frá árinu 1999 hafa meira en 850 einstaklingar fallið fyrir eigin hendi sem jafngildir þremur mannslífum í hverjum mánuði. „Þetta er málefni sem snertir okkur öll og ætti ekki að liggja í þagnargildi. Ég reyni að nýta þessi verkefni mín til að vekja fólk til umhugsunar í þágu einhvers góðs málefnis hverju sinni,“ segir Einar sem hefur áður lagt góðum málefnum lið með álíka hætti; lyft meira en 520 tonnum samanlagt í réttstöðulyftu á einum sólarhring, róið 500 kílómetra og synt samfleytt í tvo sólarhringa.
Til minningar um móðurbróður
„Markmiðið með þessu verkefni er að fá okkur öll til þess að hugsa hlýtt til þeirra sem þjást í eigin hugsunum og varpa ljósi á þau úrræði sem í boði eru. Kveikjan að þessu var sú að fyrir réttu ári síðan lést móðurbróðir minn af slysförum en hann var mér afar náinn og kær og mig langaði til að gera eitthvað til að heiðra minningu hans. Hann var 56 ára gamall þegar hann dó þann 10.11. og ég yfirfæri þær tölur á þetta verkefni; þ.e. 56, 10 og 11. Ég ákvað að leggja Píeta-samtökunum lið að þessu sinni, meðal annars vegna þess að þegar ég var að undirbúa verkefnið hafði samband við mig einstaklingur sem hafði verið í sjálfsvígshugleiðingum fyrir fjórum árum. Það var á sama tíma og ég var í róðrarverkefninu sem var í streymi á netinu; viðkomandi sá þá útsendingu og ákvað að mæta á staðinn og róa með mér af fullum krafti og í framhaldi af því að leita sér hjálpar. Í dag er þessi einstaklingur á mjög góðum stað í lífinu og telur að róðurinn á sínum tíma eigi stóran þátt í því.“
Ásgerður Sófusdóttir hjúkrunarfræðingur og eiginkona Einars stendur sem fyrr þétt að baki manni sínum í verkefninu. „Hann býr að mjög heilsteyptu uppeldi á uppvaxtarárum sínum á Hvammstanga þar sem hann lagði stund á alls kyns íþróttir og útileiki með félögum sínum. Sá bakgrunnur í bland við smá hvatvísi og seiglu gerir það að verkum að svona hugmynd verður að veruleika og hann tengir svo verkefni sín við málefni sem skipta hann miklu máli.“ Ása heldur vel utan um líkamlega og andlega heilsu Einars meðan á verkefninu stendur og hefur umsjón með bataferlinu sem tekur við að því loknu. Fjölskylda og vinir Einars veita honum mikinn styrk, sérstaklega undir lokin þegar kraftana tekur að þverra og vakan fer að segja til sín.