VETRARSÓLSTÖÐUGANGA

Vetrarsólstöðugangan er haldin í desember, rétt fyrir jólin, en þá eiga margir um sárt að binda eftir missi. Hún er innihaldsrík samverustund á dimmasta kvöldi ársins haldin í minningu þeirra sem látist hafa fyrir eigin hendi og hvatning til þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir að gefast ekki upp heldur þiggja hjálp og velja lífið.

Hist er í húsnæði við Klettagarða, boðið er upp á heitt kakó og tónlistaratriði. Genginn er stuttur spölur að vitanum við Skarfaklett þar sem minningarstund er haldin, kveikt á kertum og skrifuð minningarorð um ástvini á minningarplötu. Hægt að kaupa kerti á staðnum til styrktar Píeta samtökunum.

Árið 2018 mun gangan verða þann 21. desember kl 20:00 og hist verður í húsnæði Kynnisferða að Klettagörðum 12. Húsið mun opna kl 19:30

Ingó Veðurguð mun taka nokkur vel valin lög áður en haldið er út að vitanum.

 

Píeta samtökin vilja þakka Kynnisferðum, Reykjavíkurhöfnum og Mjólkursamsölunni fyrir að styðja þetta verkefni.