Chat with us, powered by LiveChat

Veiga á síðustu sjómílunum

Veiga Grétarsdóttir kajakræðari er á lokasprettinum og stefnir á að ljúka hringnum á Ísafirði á laugardaginn næstkomandi, þann 24. ágúst. Hún lagði af stað frá Reykjafirði í morgun og á nú aðeins eftir um 150 km af 2200 km.

Veiga lagði af stað í hringferðina frá Ísafirði 14. maí sl. og hefur róðurinn gengið vel þó veðrið hafi stundum sett strik í reikninginn og tafið hana töluvert meðal annars vegna hvassrar norðanáttar fyrir Norðurlandi. Veiga hef­ur lent í ýms­u og þurft að taka á honum stóra sínum enda er það enginn sunnudagsrúntur að róa hringinn í kringum Ísland á kajak.

Við viljum hvetja alla vini og velunnara Píeta samtakanna að heita á Veigu í þessu frábæra verkefni hennar, en þetta er gríðarlegt afrek, að róa á móti straumunum í kringum Ísland á kajak og ekki er vitað um að neinn annar hafi gert það áður.

Við hjá Píeta samtökunum erum einstaklega stolt því að taka þátt í þessu verkefni sem er einstakt á heimsvísu og hefur nú þegar vakið mikla athygli. Óskar Páll Sveinsson kvikmyndagerðamaður fylgir Veigu eftir og gerir heimildarmynd um ferðalagið og hinn eini sanni Ragnar Axelsson, þekktur sem RAX, hefur myndað hluta af ferðinni.

Við viljum nota tækifærið og þakka öllum sem styrkt hafa verkefnið og sérstaklega þeim sem tekið hafa á móti Veigu víðsvegar um landið, veitt henni gistingu og útvegað húsnæði fyrir fyrirlestra hennar. Takk öll, ykkar hjálp er ómetanleg.

Við minnum á að hægt er að heita á Veigu og styrkja þar með starf Píeta samtakann með því að leggja inn á söfnunarreikning: 0301-13-305038 kt. 4104160690 eða hringja í söfnunarnúmer 901 7111 – 1.000, kr. / 901 7113 – 3.000, kr. / 901 7115 – 5.000, kr.