VEIGA KOMIN Á ARNARSTAPA

Hringróðurinn í kringum landið gengur vel hjá Veigu. Hún náði merkum áfanga aðfaranótt 27. maí þegar hún reri fyrir Svörtuloft en sá leggur leiðarinnar er einn erfiðasti róðrakaflinn umhverfis Ísland. Samkvæmt Veigu gekk róðurinn vel framan af en þegar komið var fyrir Malarrif var aldan orðin ansi há og þurfti hún að taka á honum stóra sínum síðasta spölinn að Arnarstapa. Þar náði Veiga á land snemma um morgunin eftir 60 km róður. Dvelur hún nú á Hótel Arnarstapa í góðu yfirlæti þar sem henni var boðin gisting eftir að fréttir bárust af róðrinum langa. Veiga var að vonum fegin hvíldinni frá tjaldinu og svefnpokanum og nýtir nú tækifærið til að hvíla sig vel fyrir næsta áfanga.