Ársskýrsla Píeta samtakanna 2017-2018

Um Píeta Ísland

Píeta Ísland eru frjáls félagasamtök. Meginmarkmið samtakanna er að vinna gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða á Íslandi. Samtökin stuðla að forvörnum, opinni umræðu og vitundarvakningu um sjálfsvíg og sjálfsskaða.

Upphaf stofnunar Píeta samtakanna má rekja til ársins 2013 þegar hópur áhugamanna um forvarnarstarf gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða kom saman. Í þessum hópi voru m.a. einstaklingar sem höfðu kynnt sér starfsemi Píeta House á Írlandi og séð að slík starfsemi gæti hentað vel á Íslandi. Á vormánuðum 2016 var Píeta Ísland stofnað og farið að huga að formi og innihaldi starfseminnar. Á haustmánuðum var hugmyndin kynnt víða í samfélaginu og lögð drög að starfseminni.

Vorið 2017 var ráðinn framkvæmdastjóri í hálft starf og formannaskipti urðu á svipuðum tíma, Björk Jónsdóttir tók við af Jóhönnu Maríu Eyjólfsdóttur.

Stjórn Píeta samtakanna:

Björk Jónsdóttir, formaður

Benedikt Þór Guðmundsson, varaformaður

Margrét María Sigurðardóttir, ritari

Vilhjálmur Árnason, meðstjórnandi

Einar Gylfi Jónsson, meðstjórnandi

Lögð var mikil vinna í að kynna hlutverk og markmið samtakanna og leita styrkja til að reka starfsemina, finna húsnæði og greina hvað þyrfti af fagfólki. Kynningar fóru fram í  félögum, stofnunum og samtökum og var hugmyndinni hvarvetna vel tekið. Starfsemin hjá Pieta á Írlandi var höfð að leiðarljósi.

Í október 2017 var undirritaður samningur milli Píeta og Almenna leigufélagsins um afnot af húsnæði félagsins að Baldursgötu 7. Almenna leigufélagið tók að sér að taka húsnæðið í gegn og ýmis fyrirtæki, s.s. Ikea, Rúmfatalagerinn, Slippfélagið, Húsgagnahöllin, Byko, Ormsson, Olís, ýmis sveitarfélög o.fl. styrktu samtökin með húsbúnaði, málningu o.fl. Stefnt var að opnun hússins á vormánuðum 2018.

Undirritaður var samningur við Miðlun um stofnun styrktarsamfélags Píeta samtakanna í október 2017 og er sá samningur enn í gildi og er mikill styrkur fyrir starfsemina.

KPMG og Píeta samtökin undirrituðu samning í lok árs 2017 sem fól í sér utanumhald um bókhald samtakanna.

Komið var á fagráði samtakanna þar sem sitja 5 aðilar úr háskólasamfélaginu, sem mun styðja við starfið, stuðla að gegnsæi og fylgjast með því að öllum ferlum sé rétt framfylgt að lögum, svo sem stjórnsýslu- og persónuverndarlögum, og jafnframt meta reglulega árangur af starfinu.

Auglýst var eftir starfsfólki í nóvember 2017. Auglýst var eftir forstöðumanni með fagþekkingu á sviði samtakanna, 6 umsækjendur sóttu um og voru allir teknir í viðtöl. Ákveðið var að ráða Eddu Arndal, geðhjúkrunar- og fjölskyldufræðing, í starf forstöðumanns og hóf hún störf í febrúar 2018. Ennfremur var auglýst eftir móttökuráðgjöfum og voru þau Steinn Jónsson og Ólöf Birna Björnsdóttir ráðin í 50% starf hvort um sig. Gerður var samningur við Virk um ráðningu annars móttökuráðgjafans. Móttökuráðgjafar hófu störf í byrjun febrúar 2018.

Þeir sem gerðu það kleift að hægt var að hefja starfsemina voru: Velferðarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Olís, Kiwanis, Oddfellow, Lions og ýmsir ónafngreindir aðilar og félagasamtök.

Markmið Píeta samtakanna er:

 • Að veita fólki sem er í sjálfsvígshugleiðingum eða stundar sjálfsskaða meðferð í fallegu og heimilislegu umhverfi.
 • Að veita aðstandendum sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi stuðning og fræðslu.
 • Að hvetja til aukinnar þekkingar og vitundar um orsakir og afleiðingar sjálfsvíga og sjálfsskaða.
 • Að vera vettvangur fyrir fræðslu og umfjöllun um sjálfsvíg og sjálfsskaða.
 • Píeta samtökin stefna á að byggja upp forvarnarfræðslu um sjálfsvíg og sjálfsskaða til að fara með inn í grunn- og framhaldsskóla landsins og byggja upp tengslanet og þekkingu á málaflokknum innan íþróttafélaganna.
 • Pieta samtökin stefna að útgáfu kennsluefnis, byggðu á kennsluefni sem hefur gefið góða raun á Írlandi, og fylgja því eftir með fræðslu m.a. í skólakerfinu, hjá íþróttahreyfingum og á vinnustöðum.

Hverjir geta leitað til Píeta samtakanna:

 • Einstaklingar sem hafa tíðar hugsanir um að vilja ekki lifa, sjá ekki tilgang með lífinu, leita leiða til að binda endi á líf sitt, hafa misst vonina og líta á sjálfsvíg sem leið út úr vanlíðan.
 • Einstaklingar sem nota sjálfsskaða sem bjargráð við vanlíðan.
 • Aðstandendur sem hafa misst eða eiga ástvin í vanda geta sótt fundi sérstakra stuðningshópa og fengið ráðgjöf.

Lagt er upp úr því að bjóða upp á rólegt og notalegt umhverfi fyrir skjólstæðinga.

Þegar einstaklingar þurfa önnur meðferðarúrræði en þau sem samtökin geta boðið upp á er reynt að aðstoða viðkomandi við að finna viðeigandi þjónustu. Dæmi um það eru vímuefnameðferðir, geðdeildir eða félagsþjónustan.

Starfsemi Píeta samtakanna

Starfsemin er að mestu rekin að fyrirmynd og eftir hugmyndafræði Pieta House á Írlandi.

Meðferðin er mótuð af samúð og virðingu fyrir hverjum þeim sem til samtakanna leitar og áhersla lögð á lausnir og uppbyggingu. Miðað er að því að leysa yfirstandandi krísu með viðkomandi skjólstæðingi og glæða von hans/hennar um líf sem er þess virði að lifa. Kennd eru ýmis bjargráð til að fást við erfiðar tilfinningar ásamt streitu- og tilfinningastjórnun og samskiptafærni. Gefinn er kostur á allt að 15 viðtölum, en þörfin er metin í hverju tilviki fyrir sig. Þegar við á er fjölskyldu og/eða nánustu aðstandendum boðið að taka þátt í meðferðinni með það að markmiði að styrkja stuðningsnet einstaklingsins. Gefinn er kostur á allt að 5 viðtölum fyrir aðstandendur. Meðferðin er með öllu gjaldfrjáls.

Samtökin leggja metnað sinn í að vinna með öðrum stofnunum, samtökum og félögum sem á einhvern hátt tengjast markhópi samtakanna, s.s. Rauða krossinum, Bjarkarhlíð, Landlæknisembættinu, Geðhjálp, lögreglunni, LSP, 112 o.fl.

Píeta samtökin hófu starfsemi sína í mars 2018 að Baldursgötu 7 en formleg opnun var í apríl 2018. Símatími Píeta samtakanna er frá kl. 9:00 – 16:00 alla virka daga. Í upphafi störfuðu þar forstöðumaður, sem er geðhjúkrunarfræðingur og fjölskylduráðgjafi, og 2 móttökuráðgjafar. Fljótlega kom í ljós að þörf var fyrir fleira starfsfólk og í dag starfa 2 sálfræðingar og 1 félagsráðgjafi sem verktakar við meðferðarvinnu og verkefnastjórar í hlutastörfum.

Hér má sjá fjölda þeirra sem leitað hafa til samtakanna frá apríl til nóvember 2018.

Starfræktir eru stuðningshópar innan Píeta samtakanna:

 • Hópur fyrir þá sem misst hafa ástvin í sjálfsvígi sem hittist einu sinni í mánuði. Þórey Dögg Jónsdóttir djákni leiðir hópinn.
 • Hópur fyrir feður, bræður, syni og vini þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi. Bjarni Karlsson prestur leiðir hópinn.
 • Í desember 2018 fór af stað nýr stuðningshópur sem er fyrir unga karlmenn í sjálfsvígshættu og hittist sá hópur tvisvar í mánuði. Þeir sem leiða hann eru Birgir Örn Steinarsson sálfræðingur og Steinn Jónsson ráðgjafi.

Vetrarsólstöðugangan

Frá árinu 2016 hafa Píeta samtökin staðið fyrir Vetrarsólstöðugöngu 21. desember en um hátíðirnar eiga margir um sárt að binda eftir missi. Vetrarsólstöðugangan er innihaldsrík samverustund á dimmasta kvöldi ársins haldin í minningu þeirra sem látist hafa fyrir eigin hendi en jafnframt hvatning til þeirra sem glíma við sjálfsvígshugsanir að gefast ekki upp heldur þiggja hjálp og velja lífið. Genginn er stuttur spölur að vitanum við Skarfaklett þar sem minningarstund er haldin, kveikt á kertum og skrifuð minningarorð um ástvini á minningarplötu sem fest er á vitann.

Frá árinu 2016 hefur verið  skipulögð 5 km ganga undir yfirskriftinni „Úr myrkrinu i ljósið“ í byrjun maí. Gangan er að fyrirmynd “Darkness into light” göngu hins írska Pieta House og er hún orðin að árlegum viðburði víða um heim. Gangan er haldin að vori til eftir miðnætti. Lagt er af stað í myrkri og gengið saman inn í dagrenninguna, úr myrkrinu í ljósið.

Hópur manna hleypur árlega í Reykjavíkurmaraþoni til styrktar samtökunum.

Styrktaraðilar og verkefni

Segðu það upphátt

Með auglýsingaherferð undir yfirskriftinni „Segðu það upphátt“, sem er unnin í samvinnu við Olís, með þátttöku handboltafólks úr Olísdeildinni, minnum við á hve mikilvægt er að tala opinskátt um erfiðleika og leita til vina og annars baklands ef fólki líður illa. Ennfremur og ekki síður er auglýsingaherferðinni ætlað að benda á mikilvægi þess að við hin látum vita af því að við séum til staðar fyrir þá sem standa okkur nærri og glíma við slíka vanlíðan – að við ætlum ekki að standa aðgerðarlaus hjá, við séum reiðubúin til að hlusta og aðstoða – eða í það minnsta að hjálpa viðkomandi að leita sér viðeigandi aðstoðar.

ToyRun Iceland

Mótorhjólamenn, sem eru félagar í ToyRun góðgerðarsamtökunum, hjóluðu hringinn í kringum landið sl. sumar í þeim tilgangi að kynna Pieta samtökin og safna fé til reksturs Píeta húss með því að selja merki sem þeir hönnuðu sjálfir.

Ingólfsvaka

Haldin var fjölskylduskemmtun og tónleikar í Leiknishúsinu í Breiðholti sl. haust. Markmiðið með styrktartónleikunum, sem haldnir eru í annað sinn, er að styrkja baráttuna gegn sjálfsvígum og efla almenna vitund um það böl sem sjálfsvíg veldur íslensku samfélagi. Þeir eru jafnframt haldnir til að heiðra minningu allra þeirra sem hafa kosið að kveðja þennan heim. Ágóði tónleikanna sl. september rann til Píeta samtakanna.

Auk ofangreindra aðila hafa fjölmargir einstaklingar, félög og fyrirtæki komið að því að styrkja samtökin þetta fyrsta starfsár.

Yfirlýsing Píeta samtakanna

Ég vil vera til staðar fyrir alla sem líður illa og leita til mín. Ég ætla ekki að standa aðgerðarlaus hjá ef mig grunar að einhver nálægt mér glími við vanlíðan og gera mitt besta til að aðstoða, án þess þó að ganga of nærri mér eða viðkomandi – en hvetja hann/hana til að leita aðstoðar sérfræðinga ef þurfa þykir. Enginn ætti að burðast einn með sársauka.