Um Pieta

PIETA Ísland – Nýtt úrræði í sjálfsvígs- og sjálfskaðaforvörnum

PIETA Ísland samtök gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða kynnir stofnun fyrirhugaðs úrræðis fyrir einstaklinga í sjálfsvígshugleiðingum og þá sem stunda sjálfsskaða. Pieta húss verður opnað á Íslandi fyrir árslok 2017.

Pieta húsið verður í íbúðarhverfi, þar verður fallegur og notalegur vettvangur þar sem allir í sjálfsvígsvanda eiga greiðan aðgang að ókeypis ráðgjöf innan 24 stunda frá því að haft er samband. Einnig verður boðið upp á þjónustu fyrir aðstandendur sem misst hafa ástvini í sjálfsvígi.

Pieta hús í Reykjavík mun geta náð til 81 % landsmanna en stefnt er að opnun Pieta athvarfs víða um landið svo að þjónustan nái til allra landsmanna.

Fyrirmyndin er sótt til PIETA House á Írlandi en þar hefur um áratuga skeið náðst einstakur árangur í sjálfsvígsforvörnum með þeim úrræðum sem PIETA House býður einstaklingum upp á. Árlega njóta 17.000 einstaklingar þjónustu PIETA House á Írlandi og síðustu ár hafa samtökin einnig fest rætur í Bandaríkjunum og Ástralíu.

Málefnið varðar hverja einustu stórfjölskyldu og vinnustað í landinu. Líklegt er talið að um 5000 einstaklingar, eða fimmtán af hverjum eitt þúsund Íslendingum, íhugi sjálfsvíg árlega á Íslandi. Vert er að hafa í huga að 8000 einstaklingar glíma við alvarlegt þunglyndi og þar af 2000 með alvarlegar sjálfsvígshugsanir.